Fyrirspurn frá Rótinni vegna forvarna

Fyrirspurn frá Rótinni vegna forvarna

Þrjátíu ára gömul auglýsing úr víðfrægri forvarnaherferð Partnership for a Drug-Free America.

Rótin hefur sent frá sér eftirfarandi erindi til Barnaverndarstofu, borgarstjóra, Embættis landlæknis, menntamálaráðuneytis og Umboðsmanns barna:

“Efni: Fyrirspurn frá Rótinni vegna forvarna
Sent til: Barnaverndarstofu, Borgarstjóra Reykjavíkur, borgarstjóra,  Embættis landlæknis,  menntamálaráðuneytis,  Umboðsmanns barna.
Reykjavík 6. október 2018
Ýmsir aðilar, þar á meðal grunn- og framhaldsskólar, standa fyrir skipulögðum hópferðum barna og unglinga að sjá kvikmyndina Lof mér að falla. Myndin er bönnuð börnum yngri en 14 ára en þegar um er að ræða yngri börn er óskað eftir leyfi frá foreldrum. Ferðin er farin undir því yfirskini að um forvarnastarf sé að ræða.

(more…)

Föllum ekki í hræðsluáróðursgryfjuna

Föllum ekki í hræðsluáróðursgryfjuna

Guðrún Ebba Ólafsdóttir

4. október 2018

Fyrir stuttu var myndin „Lof mér að falla“ eftir Baldvin Z frumsýnd en myndin fjallar um sorgleg örlög tveggja stúlkna sem ánetjast vímuefnum. Í umræðum um myndina er áberandi að bundnar eru miklar vonir við að hún verði til þess að fæla börn og ungmenni frá eiturlyfjaneyslu og hafi mikið forvarnargildi.

Því miður hafa sögur eins og sú sem er sögð í myndinni lítið sem ekkert forvarnargildi, enda er myndin ekki forvarnarverkefni. Þó að við skyldum alla nemendur til að sjá hana er ólíklegt að það forði þeim frá neyslu vímuefna. Dapurlegar neyslusögur eða hræðsluáróður hafa lítið sem ekkert forvarnargildi eða fælingarmátt. Líklegt er að ungmenni sem horfa á myndina spegli sig ekki í persónum hennar, ekki einu sinni þó að þau séu að fikta við neyslu. Unglingar lifa í þeirri trú að þau muni aldrei missa svona stjórnina, þau muni hætta áður en svo langt væri gengið. Auk þess er sumum alveg sama og hræðast ekki dauðann. Rannsóknir síðustu áratuga sýna að forvarnir sem byggja á hræðsluáróðri virka einfaldlega ekki á ungt fólk og geta haft öfug áhrif á þá sem í mestri hættu eru.

Samkvæmt „íslenska módelinu“ sem svo hefur verið kallað, virkar ekki vel að „ganga á milli skóla og predika yfir ungmennum um skaðsemi áfengis og reykinga“. Forvarnir eiga ekki að snúast um að reyna að stjórna unglingum heldur frekar hvetja til samvista með foreldrum, leiðbeina á rétta braut og hvetja fjölskyldur til að gera ýmislegt saman. (Sjá nánar https://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/10/03/arangur_i_forvornum_fangar_athygli_dana/.(more…)

Föllum ekki í hræðsluáróðursgryfjuna

Ótímabær umræða um fyrirgefningu, iðrun og yfirbót

Guðrún Ebba Ólafsdóttir

5. september 2018

Heimspekingurinn Kathryn Norlock setur fram femíníska kenningu um fyrirgefninguna í bókinni „Forgiveness from a feminist perspective“. Kyn er lykilhugtak þegar kemur að því að rýna í hugtakið „fyrirgefning“ og Norlock færir fyrir því rök að það sé rík tilhneiging til að ætlast til fyrirgefningar af hendi kvenna, en mun síður karla, og að sáttfýsi og fúsleikinn til að fyrirgefa sé iðulega tengdur kvenleikanum. Þá bendir Norlock á að fyrirgefninguna verði alltaf að skoða út frá tengslum þeirra sem fyrirgefa og er fyrirgefið og að hefð sé fyrir því að horfa á fyrirgefninguna með augum heimspekingsins Kants, sem gerði ráð fyrir því að hún ætti sér stað á milli jafningja. Fyrirgefningin er hins vegar alltaf háð samhengi og valdatengslum og þar komum við aftur að kyninu þar sem sambönd okkar og valdastaða eru verulega háð því af hvaða kyni við erum. Það er því gagnslítið að ræða um fyrirgefninguna í tengslalausu tómarúmi.
Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðilegri siðfræði, hefur einmitt skrifað áhugaverða grein, „Að fyrirgefa ekki – gildi gremjunnar fyrir einstaklinga og samfélög“, þar sem hún bendir annars vegar á að sumt sé einfaldlega ófyrirgefanlegt og að í kristninni sé það aðeins Guð sem geti mögulega fyrirgefið hið ófyrirgefanlega. Hin kristna sýn er sú að það sé bara sá sem valdið hefur sem getur fyrirgefið.
Það samrýmist því hvorki kristinni siðfræði né femínískri sýn á fyrirgefninguna að látið sé í veðri vaka að þolendur kynferðisofbeldis skuldi gerendum fyrirgefningu, eða nokkuð annað.  (more…)

Er kynjaskipt meðferð tískustraumur?

Er kynjaskipt meðferð tískustraumur?

31. ágúst 2018

Í morgunútvarpi Rásar 1, 28. ágúst sl., var viðtal við Pál Bjarnason dagskrárstjóra á sjúkrahúsinu Vogi þar sem hann upplýsti að „straumar og tískur í samfélaginu“ kalli á ýmsar breytingar á starfsemi SÁÁ. Páll nefndi sem dæmi að félagið hefði „gengið ansi langt“ í því að aðskilja kynin í meðferð og þegar hann var inntur eftir ástæðum breytinganna svaraði hann: „það er svona að hluta til bara krafa samfélagsins að þetta sé þannig. Fólk eigi ekki að mixa saman reitum þarna. Það er stundum vandamál af því, menn verða svo uppteknir af hinu kyninu, það getur, það er ágætt að þurfa ekki að vera að velta því of mikið fyrir sér á meðan maður er að skoða sín vandamál“.

Við í Rótinni teljum að það sé út af fyrir sig gott að hlustað sé á kröfur samtímans, en það hlýtur þó að þurfa að gera ríka kröfu um að stærsti rekstraraðili landsins í fíknimeðferð láti stjórnast af gagnreyndri þekkingu en ekki tískustraumum.

Krafan um að veitt sé meðferð sem byggir á gagnreyndri þekkingu sem tekur mið af kyni (e. gender-responsive) og er áfallamiðuð (e. trauma-informed) er ekki krafa um „apartheit“-stefnu heldur krafa um að sú þekking sem til er um mismunandi þarfir kynja, hópa og einstaklinga sé nýtt í meðferð. Undanfarna áratugi hefur þekking á kynjamun, þegar kemur að þróun og meðferð við fíknivanda, aukist mikið og nýlega hafa alþjóðastofnanir gefið út efni um mikilvægi þess að gangskör sé gerð að því að bæta stefnumótun og meðferð fyrir konur með fíknivanda. Eitt helsta baráttumál Rótarinnar frá stofnun félagsins er að meðferðin sé heildræn og að fíknivandinn sé skoðaður út frá afleiðingum áfalla og ofbeldis sem einkennir reynslu meirihluta kvenna sem glíma við fíkn, í samræmi við tilmæli Alþjóðaheilbrigðisstofnununarinnar, stofnana SÞ og Evrópustofnanir sem fjalla um fíkn. (more…)

Konur studdar til bata – Daghópur

Konur studdar til bata – Daghópur

24. ágúst 2018

Á komandi vetri býður Rótin upp á hópastarf fyrir konur sem glímt hafa við fíknivanda þar sem lögð er áhersla á að fíknivandi sé afleiðing af áfalli (ens. trauma) og/eða öðrum fjölþættum vanda í lífi kvenna og að neyslan sé einkenni en ekki frumorsök. Aðaláhersla í hópunum er á fjóra þætti, sem eru: sjálfsmynd, sambönd og samskipti, kynverund og andlegt líf. Sjá nánar um hópastarfið hér fyrir neðan.

Rótin fer af stað með hópana í samstarfi við Janus endurhæfingu og er fullbókað í þann hóp, sem hittist kl. 17:15 á þriðjudögum, en nokkur sæti eru laus í daghóp sem hittist  á þriðjudögum  kl. 13:00-14:30.

Starfið í daghópnum hefst þriðjudaginn 28. ágúst og því óskum við eftir umsóknum eigi síðar en sunnudaginn 26. ágúst.

Eyðublað vegna umsóknar um þátttöku er hér. Einnig er hægt að senda tölvupóst á rotin@rotin.is með upplýsingum um nafn, kennitölu, netfangi og símanúmeri og gefa upp hvort þátttakandi er skráður í Rótina.

Innan þáttanna fjögurra, sem nefndir eru hér að framan, eru undirflokkar þar sem farið er ítarlega í þau atriði sem talin eru mikilvæg fyrir konur í bataferli.

Í hópastarfinu er spurt hvað kom fyrir konurnar í stað þess að spyrja hvað sé að þeim. Hvernig þær hafi komist af og til hvaða bjargráða hver og ein þeirra hafi gripið. Kynntar eru nýjar aðferðir til að takast á við vandann í stað neyslu. Markmiðið er að konurnar öðlist aukna sjálfsþekkingu sem einstaklingar, í stað þess að skilgreina sig í gegnum sambönd eða stöðu sína, að þær finni styrkleika sína og geti byggt framtíð sína og betra líf á þeim. (more…)