Rótarhópar – Leiddir sjálfshjálparhópar hefjast 16. janúar

Rótarhópar – Leiddir sjálfshjálparhópar hefjast 16. janúar

Rótin býður upp á sjálfshjálparhópa, Rótarhópa, fyrir konur sem tekið hafa þátt í námskeiðinu Konur studdar til bata og konur sem eru komnar vel af stað í bata með öðrum leiðum. Hópastarfið er konunum að kostnaðarlausu en samskotum verður safnað í hópunum.

Hóparnir funda á miðvikudögum kl. 19.15-20.15 í Bjarkarhlíð við Bústaðaveg. Leiðbeinendur eru Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Katrín G. Alfreðsdóttir.

Í Rótarhópunum er unnið út frá þekkingu á sambandi áfalla og vímuefnavanda og er þátttaka í hópunum aðeins einn hluti af áframhaldandi bataferli. Engin skyndilækning er til á áhrifum áfalla og allt lífið erum við að skoða fortíð okkar, læra af henni og skapa okkur betri framtíð í kjölfarið.

Umræðuefni hópanna tengjast viðfangsefnum námskeiðsins Konur studdar til bata þar sem aðaláherslan er á fjóra þætti, sem eru: sjálfsmynd, sambönd og samskipti, kynverund og andleg heilsa. Innan þessara þátta eru undirflokkar sem allir snerta mikilvæg atriði fyrir konur í bataferli. Spurt er hvað kom fyrir konurnar í stað þess að spyrja hvað sé að þeim. Hvernig hafa þær komist af og til hvaða bjargráða hver og ein þeirra hafi gripið. Rætt er um nýjar aðferðir til að takast á við vandann í stað neyslu. (more…)

Umsögn til Alþingis um áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi

Umsögn til Alþingis um áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi

Rótin hefur sent eftirfarandi umsögn til Alþingis. Hana má nálgast í PDF-skjali hér. 

Efni: Umsögn Rótarinnar – félags um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda um tillögu til þingsályktunar um áætlun fyrir árin 2019-2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess, 409. mál.

Rótin – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda barst til umsagnar þingsályktunartillaga um áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess fyrir árin 2019-2022 og fagnar því að hún sé fram komin og mörgum þeirra aðgerða sem áætlað er að ráðast í samkvæmt tillögunni.

Rótin vill koma á framfæri athugasemdum við tillöguna og þá aðallega að því er varðar samslátt ofbeldis og vímuefnavanda þar sem ekki er vikið að því samhengi einu orði í þingsályktunartillögunni.

  1. Fyrsta athugasemdin lítur að því að hvergi í þingsályktunartillögunni er minnst á samband ofbeldis og vímuefnavanda sem þó er bæði augljóst og nauðsynlegt hafa í huga alltaf þegar verið er að setja lög, móta stefnu, úrræði eða aðgerðir um annað hvort. Rannsóknir á tengslum áfalla í æsku og heilsufars síðar á lífsleiðinni styðja sífellt betur þá staðreynd að ofneysla áfengis eða annarra vímuefna verður ekki til í tómarúmi. Að baki vandanum býr oftar en ekki saga um áföll og ofbeldi sem vinna þarf með á bataleiðinni. Kyn hefur líka áhrif, það að fæðast kona í karllægum heimi veikir stoðirnar og því er nauðsynlegt að meðferð við vímuefnavanda taki mið af því. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að um 80% kvenna sem leita sér lækninga vegna vímuefnavanda hafa orðið fyrir ofbeldi.

(more…)

Mat þátttakenda á námskeiðinu „Konur studdar til bata“, haust 2018

Mat þátttakenda á námskeiðinu „Konur studdar til bata“, haust 2018

Námskeiðið Konur studdar til bata var haldið var á vegum Rótarinnar, í samstarfi við Janus endurhæfingu, haustið 2018 og fóru námskeiðin fram í húsnæði Janusar, Skúlagötu 19. Námskeiðið er byggt á efni frá dr. Stephanie Covington, Helping Women Recover. Guðrún Ebba Ólafsdóttir hafði veg og vanda af þýðingu námsefnisins.

Verkefnið þáði styrki frá heilbrigðisráðuneyti, velferðarráði Reykjavíkurborgar og Lýðheilsusjóði. Þá studdi Fræðslusjóður Rótarinnar þýðingu námsefnisins og kunnum við þessum aðilum bestu þakkir fyrir stuðninginn.

Könnun á ánægju með námskeiðið var lögð fyrir þátttakendur að því loknu og hér birtast niðurstöður hennar.

Hóparnir voru tveir, daghópur fyrir konur í endurhæfingu hjá Janusi þar sem Katrín G. Alfreðsdóttir, félagsráðgjafi sem lokið hefur leiðbeinendanámskeiði hjá Covington í notkun efnisins, og Gunnhildur Kristjánsdóttir, iðjuþjálfi, voru leiðbeinendur og hittist sá hópur eftir hádegi á þriðjudögum. Fimm konur luku námskeiðinu. Katrín og Guðrún Ebba Ólafsdóttir, grunnskólakennara, leiðbeindu hinum hópnum kl. 17.15 á þriðjudögum og luku 8 konur því námskeiði. Alls kláruðu 13. konur námskeiðin. Svörin eru ekki aðgreind eftir hópunum. Kristín I. Pálsdóttir sá um verkefnisstjórn.

Könnunin var þrískipt. Alls svöruðu 13 konur könnuninni, 9 konur á blöðum og 4 í netkönnun. Í fyrri hlutunum tveimur voru þátttakendur spurðir um ánægju með námskeiðið annars vegar og ánægju með námsefnið hins vegar og svöruðu þeir spurningum með því að gera hring um númer á skalanum 0-4 þar sem 0 er alls ekki sammála, 1 svolítið sammála, 2 nokkuð sammála, 3 frekar sammála og 4 mjög mikið sammála. Í öðrum hlutanum bættist við valmöguleikinn VE = Var ekki þegar þessi hluti var tekinn fyrir. Í síðasta hlutanum voru opnar spurningar um námskeiðið þar sem konurnar höfðu tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri. (more…)

Rótarhópar – Leiddir sjálfshjálparhópar hefjast 16. janúar

Konur studdar til bata og Rótarhópar – Vor 2019

Rótin býður á námskeið og í sjálfshjálparhópastarf, Rótarhópa fyrir konur sem glímt hafa við fíknivanda. Námskeiðið kallast á ensku Helping women recover og er höfundur efnisins Stephanie Covington sem er frumkvöðull í vinnu með fíkn og áföll hjá konum. Í samræmi við það er lögð áhersla á að fíknivandi sé afleiðing af áfalli (ens. trauma) og/eða öðrum fjölþættum vanda í lífi kvenna og að neysla vímuefna sé því einkenni en ekki frumorsök.

Aðaláherslan er á fjóra þætti, sem eru:

  1. sjálfsmynd
  2. sambönd og samskipti
  3. kynverund
  4. andleg heilsa

Innan þessara þátta eru undirflokkar þar sem farið er ítarlega í þau atriði sem talin eru mikilvæg fyrir konur í bataferli. Spurt er hvað kom fyrir konurnar í stað þess að spyrja hvað sé að þeim. Hvernig hafa þær komist af og til hvaða bjargráða hver og ein þeirra hafi gripið. Kynntar eru nýjar aðferðir til að takast á við vandann í stað neyslu. (more…)

Forvarnir – Svar Barnaverndarstofu

Forvarnir – Svar Barnaverndarstofu

10. desember 2018

Rótinni hefur borist svar frá Barnaverndarstofu við fyrirspurn vegna forvarna sem send var á Barnaverndarstofu, borgarstjóra, Embættis landlæknis, menntamálaráðuneytis og Umboðsmanns barna. Landlæknir svaraði fyrirspurninni 8. október. Áður hafa borist svör frá Embætti landlæknis og Embætti umboðsmanns barna.

Rannsóknir síðustu áratuga á sviði forvarna gefa ekki neina vísbendingu um það að hræðsluáróður, eða svokölluð óttaboð, dragi úr áhættuhegðun hjá áhættuhópum. Til eru rannsóknir sem benda til þess að slík fræðsla geti, til skamms tíma, haft þau áhrif á fólk að það segist ætla að bæta ráð sitt en Barnaverndarstofu er ekki kunnugt um neinar rannsóknir sem sýna fram á fylgni á milli óttaboða, einna og sér, og jákvæðra hegðunarbreytinga. Þá gera viðtekin skýringalíkön af sambandinu milli óttaboða og hegðunar heldur ekki ráð fyrir slíkri fylgni. Í þessu samhengi vekur Barnaverndarstofa athygli á nýrri samantektargrein eftir Kok, Peter, Kessels, ten Hoor og Ruiter (2018). (more…)