Rótarhópur fellur niður 9. og 23. október

Rótarhópur fellur niður 9. og 23. október

Miðvikudag 9. október verður umræðukvöld hjá Rótinni þar sem Gabríela Bryndís Ernudóttir, sálfræðingur, flytur erindi um samkenndarmiðaða nálgun við áföllum (e. Compassion focused therapy).

Þar sem Rótarhópur fellur niður þau kvöld sem boðið er upp á umræðukvöld verður enginn fundur í Rótarhópnum næsta miðvikudag. Við hvetjum ykkur hins vegar til að koma á umræðukvöldið  sem er haldið í Kvennaheimilinu, Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 9. október, kl. 20.00-21.30.

Þá fellur Rótarhópur og námskeið félagsins einnig niður vikuna 21.-25. október vegna vetrarleyfis.

Rótarhópurinn er fyrir konur sem tekið hafa þátt í námskeiðum á vegum Rótarinnar, konur sem hafa áhuga á að taka þátt í slíkum námskeiðum og konur sem eru komnar vel af stað í bata með öðrum leiðum eru einnig velkomnar og er þátttakendum að kostnaðarlausu. Við söfnum þó í pott fyrir kaffi og te. (more…)

Samkenndarmiðuð nálgun við áföllum – Umræðukvöld

Samkenndarmiðuð nálgun við áföllum – Umræðukvöld

Á næsta umræðukvöldi Rótarinnar, miðvikudaginn 9. október kl. 20:00-21:30, heldur gestur okkar Gabríela Bryndís Ernudóttir, sálfræðingur, erindi um samkenndarmiðaða nálgun við áföllum (e. Compassion focused therapy).

Meðferðin sameinar aðferðir annarra gagnreyndra sálfræðimeðferða og núvitundar, austurlenskrar heimspeki og nýjustu rannsókna á heilanum og þróun mannkyns. Samkenndarmiðuð nálgun við áföllum byggir að miklu leyti á fræðslu um mannlegt eðli út frá þróunarfræðilegu sjónarmiði. Að auki er mikið notast við hugleiðsluæfingar, þar sem rannsóknir sýna að hægt er að örva ákveðin svæði í heilanum með ímyndunaraflinu. Allir geta tileinkað sér samkennd, líka þeir sem eiga sögu um endurtekin áföll.

Gabríela lauk B.Sc. prófi í sálfræði við Háskóla Íslands árið 2009 og útskrifaðist með Cand. Psych. gráðu frá Kaupmannahafnarháskóla árið 2013. Gabríela hefur einnig lokið diplómanámi í jákvæðri sálfræði við Endurmenntun Háskóla Íslands árið 2016. Gabríela starfar við sálfræðiþjónustu fullorðinna á Sálfræðistofu Reykjavíkur. Þar áður starfaði hún sem sálfræðingur í geðteymi fyrir fullorðna á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og síðar á Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins.

Umræðukvöld Rótarinnar eru öllum opin, boðið er upp á te og kaffi sem er fjármagnað með samskotum. Munið eftir klinkinu eða leggið inn á reikning Rótarinnar: Kt. 500513-0470, bankanr. 0101 -26-011472.

Viðburðurinn er á Facebook!

Umræðukvöldið er haldið í Kvennaheimilinu, Hallveigarstöðum, Túngötu 14.

Staðreyndir um hræðsluáróður

Staðreyndir um hræðsluáróður

Hvað er hræðsluáróður/óttaboð?

Hræðsluáróðri eða óttaboðum er ætlað að hræða fólk til heilbrigðrar breytni (t.d að hætta að reykja, nota ekki vímuefni, hætta hraðakstri, stunda meiri líkamsrækt). Oft er notað áhrifamikið og óþægilegt mynd- og tölfræðiefni sem vekur ótta og ónot. Dæmi um hræðsluáróður eru sviðsetningar á bílslysum, myndir af sjúkum lungum reykingamanna og þekkt auglýsing með mynd af spældu eggi og yfirskriftinni „Þetta er heilinn í þér í vímu“. (more…)

Kynningarfundur – Haust 2019

Kynningarfundur – Haust 2019

Starf Rótarinnar á haustmisseri 2019 verður kynnt miðvikudaginn 21. ágúst kl. 20 að Hallveigarstöðum.
Félagið býður upp á fimm mismunandi námskeið í haust ásamt Rótarhópnum og umræðukvöldum. Námskeiðin „Konur studdar til bata“ og „Þú ert ekki ein, við erum margar“, sem einnig voru haldin síðasta vetur, eru aftur á dagskrá ásamt þremur nýjum námskeiðum. Tvö þeirra eru úr smiðju dr. Stephanie Covington, eins og „Konur studdar til bata“, en það eru námskeiðin „Áföll – Leiðir til bata“, sem er helgarnámskeið, og „Sjálfsuppgötvun og valdefling“ sem er sérsniðið að stúlkum og yngri konum, 18-25 ára. Þriðja nýja námskeiðið er svo  „Að segja frá“ sem er stutt námskeið fyrir konur sem íhuga að segja frá ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir. Sjá nánar um dagskrána og hér er skráningarsíða.
Athugið að eftir kynningu á dagskránni, um kl. 20.45, mun lögmaður fjalla um sjúkragagnamál SÁÁ og ræða spurningar sem brenna á konum varðandi sjúkragögn þeirra sem hafa verið í meðferð á Vík. Sjá nánar.
Allar sem áhuga hafa á starfi Rótarinnar eru hvattar til að mæta og taka vinkonur sínar með!
Viðburðurinn er á Facebook!
Umræðukvöld Rótarinnar eru öllum opin, boðið er upp á te og kaffi sem er fjármagnað með samskotum. Munið eftir klinkinu eða leggið inn á reikning Rótarinnar: Kt. 500513-0470, bankanr. 0101 -26-011472.
Umræðukvöldið er haldið í Kvennaheimilinu, Hallveigarstöðum, Túngötu 14.

Óásættanleg meðferð á sjúkragögnum og lítilsvirðing við viðkvæman hóp

Óásættanleg meðferð á sjúkragögnum og lítilsvirðing við viðkvæman hóp

„Sjúkragögn frá SÁÁ sögð hafa farið á flakk“ var fyrirsögn fréttar sem birtist á Mbl.is hinn 23. júlí s.l. og eins og hún gefur til kynna fjallar fréttin um óvarlega og ólöglega meðferð sjúkragagna fólks sem þegið hefur meðferð á meðferðarstöð SÁÁ að Vík á Kjalarnesi.
Í fréttinni er vitnað í Arnþór Jónsson, formann SÁÁ s.l. 6 ár, og Hjalta Björnsson, sem starfaði sem dagskrárstjóri hjá samtökunum í áratugi, þar sem þeir vísa ábyrgð á ferðalagi þessara viðkvæmu sjúkragagna hvor á annan. Það þarf hins vegar ekkert að rífast um það hver ber ábyrgð á þessum gögnum því að það er skilgreint í 12. gr. laga nr. 55 um sjúkraskrár frá árinu 2009 að ábyrgðaraðili sjúkraskráa er „Heilbrigðisstofnun eða starfsstofa heilbrigðisstarfsmanna þar sem sjúkraskrár eru færðar“ og í reglugerð um sjúkraskrár segir:
„Ábyrgðaraðili sjúkraskráa hverrar stofnunar og starfsstofu heilbrigðisstarfsmanna skal sjá til þess að þar sé rekið öryggiskerfi sem tryggir vernd sjúkraskrárupplýsinga sem að lágmarki uppfylli fyrirmæli landlæknis um öryggi og gæði sjúkraskráa“, því er ljóst að SÁÁ ber því ábyrgð á þessum gögnum og Embætti landlæknis „skal hafa reglubundið eftirlit með því að heilbrigðisþjónusta sem veitt er hér á landi uppfylli faglegar kröfur og ákvæði heilbrigðislöggjafar á hverjum tíma.“ (more…)