Hræða – fræða – ræða? – Umræðukvöld um forvarnir

Hræða – fræða – ræða? – Umræðukvöld um forvarnir

Hvað má og hvað er rétt að gera þegar kemur að forvörnum fyrir börn og unglinga? Gleymdum við íslenska módelinu? Hvar eru fyrirmyndir unglinga? Felast hættuleg skilaboð í rapptextum? Þessum spurningum og ótal öðrum verður reynt að svara á næsta umræðukvöldi Rótarinnar sem haldið verður miðvikudaginn 12. febrúar nk. kl. 20 á Hallveigarstöðum.

Dagskrá

  • Inngangur Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur sem jafnframt er fundarstjóri
  • „Að poppa pillu“ – áhrif dægurmenningar á viðhorf ungmenna til ólöglegra vímuefna, Halla Sigrún Arnardóttir, lýðheilsufræðingur
  • Forvarnir, virkni þeirra og þróun. Rafn Jónsson, sérfræðingur hjá Embætti landlæknis.
  • Umræður

(more…)

Hreyfiafl Rótarinnar

Hreyfiafl Rótarinnar

Hreyfiafl Rótarinnar er nýr hópur innan félagsins sem ætlar að hittast einu sinni í viku til að rækta líkama og sál. Við förum í gönguferðir, jóga, flot eða annað sem okkur blæs í brjóst. Hópurinn hittist á mismunandi stöðum og verður nýr upphafsstaður fyrir hvern mánuð.

Þórlaug Sveinsdóttir, sjúkraþjálfari og jógakennari leiðir starfið í samvinnu við þær Guðrúnu Ernu Hreiðarsdóttur, jógakennara og Huldu Stefaníu Hólm.

Fyrsti hittingur verður þriðjudaginn 4. febrúar kl. 17:30-18:30 og er upphafsstaður febrúarmánaðar í Öskjuhlíð við Nauthól. 

Þátttaka í hreyfiaflinu kostar ekki krónu og allar konur eru velkomnar!

Skráning í hópinn er hér við erum líka með hóp á Facebook fyrir Hreyfiaflið.

Mismunun í neyðarþjónustu

Mismunun í neyðarþjónustu

Rótin tekur heilshugar undir þá kröfu foreldra Heklu Lindar Jónsdóttur að lærdómur verði dreginn af aðstæðum við andlát hennar og gerðar verði nauðsynlegar breytingar á verklagsreglum Lögreglu og Neyðarlínu.

Ungt fólk með vímuefnavanda á Íslandi býr við algjörlega ófullnægjandi úrræði og stuðning til að losna út úr sjálfskaðandi hegðunarmynstri og saga Heklu Lindar þarf að verða stjórnvöldum hvatning til að bretta upp ermar og gera stórátak í því að bæta þjónustu við þennan berskjaldaða hóp. Hluti af því átaki þarf að felast í faglegri stefnumótun, að stórauka fræðslu og þjálfun í heilbrigðis- og réttarkerfi, markviss vinna gegn fordómum og aukin þekking á réttum viðbrögðum, t.d. við því þegar ung manneskja lendir í geðrofi vegna neyslu.

Rótin undrast það mikla afl sem fílefldir lögregluþjónar hafa beitt við handtöku Heklu Lindar sem var lítil og nett og varla verið ógn við nokkurn mann nema sjálfa sig í því ástandi sem hún var í við handtökuna. Þá er það stórkostlegt undrunarefni að það sé „mat sérfræðinga“ að þær aðferðir sem notaðar voru við handtökuna og áttu að mati réttarmeinafræðings „umtalsverðan þátt í dauða Heklu“ séu „viðurkenndar aðferðir“. Ef svo er þá er full ástæða til að endurmeta hvað er „viðurkennd aðferð“ við handtöku fólks í geðrofi. (more…)

Ráðgjafi tekur til starfa

Ráðgjafi tekur til starfa

Rótin býður nú upp á einstaklingsráðgjöf í samstarfi við Bjarkarhlíð og hefur Katrín G. Alfreðsdóttir, félagsráðgjafi, fjölskyldufræðingur og sérfræðingur um vímuefnavanda kvenna tekið til starfa sem ráðgjafi félagsins.

Ráðgjöfin er ætluð konum með sögu um vímuefnavanda og/eða áföll og er veitt konum að kostnaðarlausu.

Katrín tekur fyrst um sinn á móti konum á þriðjudögum í Bjarkarhlíð og fer skráning í viðtölin fram í gegnum skráningarkerfi Bjarkarhlíðar.

Fyrsta viðtal er tekið af starfsfólki Bjarkarhlíðar sem vísar svo áfram í önnur úrræði, þar með talið til ráðgjafa Rótarinnar.

Ef óskað er frekari upplýsinga um viðtölin og aðra þjónust félagsins er velkomið að senda póst á skraning@rotin.is.

Katrín G. Alfreðsdóttir er með meistarapróf í félagsráðgjöf, hefur lokið tveggja ára námi í fjölskyldumeðferð frá Endurmenntun Háskóla Íslands, hún er með Professional Certificate í vinnu með konum með vímuefnavanda frá University College Dublin og með viðbótardiplóma frá Háskóla Íslands í áfengis- og vímuefnafræðum. Katrín hefur réttindi til að veita EMDR meðferð (ens. Eye movement Desensitization and reprocessing) og hefur lokið námskeiðum í Endurmenntun Háskóla Íslands í áhugahvetjandi samtali (ens. Motivational Interviewing) og lausnamiðaðri nálgun (ens. Solution focused therapy). Katrín hefur sótt vinnustofur hjá dr. Stephanie Covington á The Connecticut Women’s Concortium, árið 2017 og 2019, og lokið þjálfun í vinnu með konur með vímuefnavanda og áfallasögu samkvæmt kenningum dr. Covington. Að auki hefur hún lokið námskeiði um sálræn áföll og ofbeldi í Háskólanum á Akureyri.

Katrín hefur tileinkað sér hugmyndafræði skaðaminnkandi nálgunar (ens. Harm reduction) og var ein af frumkvöðlum hér á landi í að kynna hugmyndafræðina og koma henni á framfæri með fyrirlestrum, kennslu og rituðu efni. Hún vann um tíma á fíknigeðdeild Landspítalans og starfaði um árabil sem sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum, bæði í Konukoti og hjá Frú Ragnheiði. Katrín er leiðbeinandi í leiðsagnarhópum og námskeiðum Rótarinnar og er þar að auki sjálfstætt starfandi félags- og fjölskyldufræðingur hjá Vegvísi – ráðgjöf í Hafnarfirði.

Rótin valin til þátttöku í Snjallræði

Rótin valin til þátttöku í Snjallræði

Rótin var eitt þeirra átta vinningsteyma sem valin voru til þátttöku í samfélagshraðlinum Snjallræði sem kynnt voru 10. október 2019. Teymin fengu stuðning til þess að þróa áfram hugmyndir sínar. Alls bárust 46 umsóknir um þátttöku í Snjallræði en að hraðlinum stóðu Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Höfði – friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóli Íslands með það að markmiði að veita fólki sem brennur fyrir bættu samfélagi vettvang til þess að þróa hugmyndir sínar áfram og finna þeim sjálfbæran farveg svo þær geti blómstrað og dafnað.

Hraðalinn fór fram frá 7. október-28. nóvember og fengu teymin  vinnuaðstöðu í Setri skapandi greina við Hlemm, stuðning við að þróa hugmyndina áfram og koma henni í framkvæmd ásamt þjálfun frá fremstu sérfræðingum á sviði samfélagslegrar nýsköpunar og aðgangi að neti mentora sem styðja við einstök verkefni. Hluti af ferlinu var vikuvinna undir handleiðslu Svöfu Grönfeldt og samstarfsfélaga hennar frá MIT DesignX í svokölluðum Sprett. Þar sannreyndu teymin hugmyndir sínar og krufu þær til mergjar í krefjandi vinnustofum sem byggðar voru á fjórum grunnstoðum MIT DesignX: Understand – Solve – Envision – Scale. Spretturinn var styrktur af MIT Industrial Liaison Program (ILP) í gegnum samstarf Háskólans í Reykjavík við Snjallræði. (more…)