Forvarnir í grunnskólum, áskoranir og leiðir

Forvarnir í grunnskólum, áskoranir og leiðir

Rótin, félag um konur, áföll og vímugjafa heldur námskeið um forvarnir í grunnskólum, áskoranir og leiðir miðvikudaginn 2. september 2020 kl. 13.30-16.00 í sal Laugalækjarskóla. Námskeiðið hlaut styrk úr Endurmenntunarsjóði grunnskóla og er því niðurgreitt. Þátttökugjald er 2.000 kr. og innifalið í því er verkefnahefti sem allir þátttakendur fá.

Einnig er hægt að fá námskeiðið í einstaka skóla eða svæði.

Sjá einnig á vef Rótarinnar þar sem skráning fer fram og þessari færslu er hægt að deila af Facebook.

Námskeið Rótarinnar byggist á gagnreyndri þekkingu á forvörnum. Á námskeiðinu verður meðal annars fjallað um börn og unglinga í áhættuhópum og áhrifaþætti vímuefnanotkunar eins og þeir birtast t.d. rannsóknum á erfiðri lífsreynslu í æsku og tengsl við vímuefnanotkun (ACE-listinn). Unnið er út frá því að vímuefnanotkun sé ekki einangrað vandamál heldur eigi sér m.a. rætur í áföllum. Þá er einnig fjallað um kynjavinkilinn á fíkniferlinum. Kynnt verða líkön um skipulag forvarna, eins og íslenska módelið, og skoðað hvað virkar og hvað ekki í forvörnum (European Prevention Curriculum). Einnig verður fjallað um verndandi þætti sem styðja gegn áhættuhegðun og vímuefnanotkun með sérstakri áherslu á hlut skóla í því sambandi.

Markmiðið með námskeiðinu er að styðja og styrkja starfsfólk skóla í að vinna að forvörnum í samræmi við nýjustu gagnreynda þekkingu og auka þekkingu á aðferðum sem styðja við betri líðan barna í skólunum. (more…)

Áföll – Leiðir til bata

Áföll – Leiðir til bata

Námskeiðinu er ætlað að styðja konur við að vinna úr afleiðingum áfalla. Athyglinni er beint að þeim áföllum sem konur eru í mestri hættu á að verða fyrir eins og kynferðisofbeldi, ofbeldi í nánum samböndum og öðru ofbeldi á milli tengdra aðila. Kennd eru bjargráð sem nýtast við úrvinnslu áfalla almennt. Námskeiðið er kynjamiðað og byggt er á styrkleikanálgun. Það er þróað af dr. Stephanie Covington og heitir á ensku Healing Trauma. Þátttakendur fá veglegt verkefnahefti. Á milli tíma er verkefnavinna sem konurnar eru hvattar til að vinna svo að þær fái sem mest út úr námskeiðinu.

Skráning

Fyrir hverjar
Námskeiðið er fyrir konur sem glíma við afleiðingar áfalla. Námskeiðið hentar sérstakleg vel konum sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi.

Markmið
Markmið námskeiðsins er að þátttakendur geti náð sér af afleiðingum áfalla, að þær finni fyrir þeim krafti sem býr innra með þeim og veiti hverri annarri m.a. stuðning til þess að létta á skömm og sektarkennd.

Aðferð
Námskeiðið skiptist í átta hluti þar sem m.a. er fjallað um vald og valdbeitingu, áfallaferlið, sjálfsumhyggju, ACE-spurningalistann, reiði og heilbrigð sambönd.

Samþykktir fyrir námskeið og hópa Rótarinnar gilda á námskeiðinu eins og í öðru starfi félagsins.

Skipulag
Námskeiðið er í 3 skipti í 5 tíma í senn, frá kl. 10:00-15:00, og verður haldið í Bjarkarhlíð við Bústaðaveg. Þátttakendur eru hvattir til að taka með sér nesti til að borða í hálftíma hléi og drykk á brúsa. Hámarksfjöldi er 6 þátttakendur á meðan taka þarf tillit til sóttvarnaráðstafana vegna Covid-19 en þeim er fylgt á námskeiðinu.

Verð
30.000 kr.

Dagsetningar  Helgarnámskeið 

Tími Dags.  Kl. 
1. 7. nóvember 10.00-15.00
2. 8. nóvember 10.00-15.00
3. 14. nóvember 10.00-15.00

Leiðbeinendur og verkefnisstjórn
Leiðbeinendur eru Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Katrín G. Alfreðsdóttir. Verkefnisstjóri er Kristín I. Pálsdóttir. Sjá nánar.

Þátttakendur eru hvattir til að sækja fundi í Rótarhópnum, á miðvikudögum kl. 19.15, að loknu námskeiðinu.

Hefnd er ekki sjúk­dómur og fyrir­gefning engin alls­herjar lækning

„Hefndin er sæt“ gefur til kynna að tilfinningin sem fylgir því að hefna sín sé eftirsóknarverð. Samkvæmt orðabókinni merkir að hefna að gjalda illt með illu og að ná sér niðri á einhverjum en einnig að refsa eða hegna. Það hefur því jafnan verið talið til dyggða að vera ekki hefnigjörn og að þeim farnist illa sem leita hefnda, sérstaklega á það við um konur. Hallgerður langbrók, ein þekktasta kvenhetja Íslendingasagnanna, er sögð hafa verið glæsileg kona, hávaxin og fögur en ákaflega skapmikil og hefnigjörn og hafa staðið í stöðugum deilum. Bæði hjónabönd hennar enduðu illa og hún flæktist inn í fleiri deilur og átök eftir að Gunnar var fallinn.

„Rétt“ skilgreining á fyrirgefningunni

Reitt fólk sem leitar hefnda fær ekki oft jákvæðar viðtökur. Og í þessu sambandi er stundum sagt óheilbrigt að ala með sér hefndarþorsta og gremju út í gerendur ofbeldis og til að losna undan þessu þurfi einstaklingurinn að fyrirgefa.

Hefnd er ekki sjúkdómur sem þarf að lækna einhvern af og þar af leiðandi er fyrirgefningin engin lækning. Hefndin getur vissulega verið vandamál en hún getur líka falið í sér lausn og á sama hátt getur fyrirgefningin verið hjálpleg en jafnframt valdið skaða. Þegar ýjað er að því að viðkomandi eigi að fyrirgefa er stundum sagt að fyrirgefningin sé fyrir brotaþolann en ekki gerandann eða að fyrirgefningin sé gríðarlega mikilvæg ef réttur skilningur er lagður í hana. Þegar reynt er að þrýsta á þolandann að upplifa hina „réttu“ skilgreiningu á fyrirgefningunni getur falist í því gaslýsing eða tilfinningaleg kúgun.

Þolandi ofbeldis þarf ekki að afsaka eða gleyma ofbeldinu

Samkvæmt orðabókinni merkir sögnin að fyrirgefa að afsaka, forláta eða gleyma mótgerð. Með öðrum orðum felst í fyrirgefningunni að þolandi afsaki, fyrirgefi og gleymi því sem gert er á móti henni. Það er bæði særandi og alvarlegt að hvetja þolendur til að fyrirgefa þeim sem beittu þær ofbeldi og varpar ábyrgðinni frá geranda til þolanda. En mörg gera það samt, sérstaklega þau sem finnst óþægilegt að þolendur séu reiðar, vilji ná fram réttlátri hefnd og að ekki sé hægt að stjórna þeim.

Fyrirgefa sjálfri þér – fyrir hvað?

Sumir segja að eina nauðsynlega fyrirgefningin sé sú að við fyrirgefum okkur sjálfum. En þá er mikilvægt að taka ekki á sig sök annarra og vera vel meðvitaðar um fyrir hvað við ættum að fyrirgefa okkur.

Látum gerendur bera ábyrgðina

Sú menning að ýta á þolendur að fyrirgefa og þar með bera byrðarnar af ofbeldinu sem þær hafa verið beittar er ekki bara skaðleg fyrir þær sjálfar heldur er hún líka skaðleg fyrir samfélagið sem hlífir gerendum við ábyrgð gjörða sinna og viðheldur þannig gerendavænni menningu.

Kristín I. Pálsdóttir og Guðrún Ebba Ólafsdóttir

Höfundar eru ráðskonur í Rótinni.

Er ég fórnarlamb?

Er ég fórnarlamb?

Af hverju er svona erfitt að gangast við því að hafa verið fórnarlamb? Annar greinarhöfundur var komin hátt á fimmtugsaldur þegar hún gerði sér grein fyrir því að hún var fórnarlamb og það eftir að hafa farið í gegnum þykkt lag af fordómum, sjálfshatri og afneitun. Hvernig er hægt að vera einstaklingur sem hefur orðið fyrir ofbeldi en ekki fórnarlamb ofbeldisins og ofbeldismannsins?

Sá eða sú sem saklaus þarf að þola óréttlæti, óþægindi eða misgerðir
Fórnarlamb hefur sömu merkingu og orðið “victim“ á ensku og samkvæmt orðabókarskýringum er merking orðsins þríþætt. Í fyrsta lagi er fórnarlamb sá einstaklingur sem sætir ofsóknum eða dauða. Í öðru lagi sá sem saklaus þarf að þola óréttlæti, óþægindi eða misgerðir. Í þriðja lagi upprunaleg merking orðsins, dýr sem fórnað er í trúarskyni. (more…)

Þöggun ofbeldis og hlutdrægni í dagskrárgerð

Þöggun ofbeldis og hlutdrægni í dagskrárgerð

Rótin hefur sendi í dag, 30. júní 2020, eftirfarandi erindi til RÚV:

Til: Baldvins Þórs Bergssonar, dagskrárstjóra Rásar 2, Sigmars Guðmundssonar, dagskrárgerðarmanns og Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri

Efni: Þöggun ofbeldis og hludrægni í dagskrárgerð

Reykjavík 30. júní 2020

„Vandi SÁÁ snýst um yfirgengilegt ofbeldi í samskiptum, vanvirðingu, undirróður og valdabaráttu manna sem geta ekki sleppt tökunum á gömlum tímum,“ segir í yfirlýsingu frá 57 starfsmönnum SÁÁ þar sem þeir frábiðja sér frekari afskipti Þórarins Tyrfingssonar af starfi félagsins. Af yfirlýsingunni má skilja að Þórarinn, sem hefur starfað hjá samtökunum í 42 ár, þar af í 20 ár sem bæði framkvæmdastjóri lækninga og formaður samtakanna, sé aðalgerandi í því ofbeldi sem starfsfólkið lýsir. Í Viðskiptablaðinu kemur einnig fram í máli Kristbjargar Höllu, starfsmanns SÁÁ að „ógnarstjórn sem hafi verið við lýði þegar hann var við stjórn.“ (more…)