Haust 2014

Dagskrá haust 2014

Umræðukvöld Rótarinnar eru að jafnaði einu sinni í mánuði, annan miðvikudag hvers mánaðar í Kvennaheimilinu á Hallveigarstöðum, Túngötu 14 kl. 20-21.20.

10. september – Stefna ríkisins í meðferðarmálum. Þorgerður Ragnarsdóttir var fyrsti gestur haustsins og fjallaði um lokaritgerð sína í opinberri stjórnsýslu um mótun hins opinbera á heildarstefnu uppbyggingar og reksturs meðferðarstofnana. Hvernig er slík stefna mótuð og hvaða sjónarmið og hagsmunir ráða ferðinni?

8. október. EMDR áfallameðferð – Gyða Eyjólfsdóttir og Monika Skarphéðinsdóttir. Fjölsóttasti viðburður Rótarinnar á síðasta starfsári var þegar Gyða Eyjólfsdóttir og Monika Skarphéðinsdóttir, sem báðar eru sálfræðingar, komu til okkar og fræddu okkur um svokallaða ACE-rannsókn (ACE Study) á áhrifum erfiðra upplifana í æsku á heilsufar síðar á ævinni. Þær komu svo aftur til okkar og í þetta sinn til að kynna fyrir okkur svokallaða EMDR áfallameðferð. Gyða er með doktorsgráðu í ráðgjafarsálfræði frá The University of Texas í Austin. Monika Skarphéðinsdóttir er sálfræðingur með cand. psych. gráðu frá Háskóla Íslands.

10. nóvember. Hver er ÞINNAR gæfu smiður? – Rætur vandans skoðaðar frá félagslegum, siðferðislegum og læknisfræðilegum sjónarhóli. Jóhann Ág. Sigurðsson prófessor í heimilislækningum flytur erindi. Málshátturinn „Hver er sinnar gæfu smiður“ er barn síns tíma. Hann nær of skammt miðað við núverandi þekkingu á helstu ákvörðunarþáttum heilbrigðis. Nær væri að breyta þessum málshætti í spurningu svo sem „Hver er þinnar gæfu smiður?“ Viðfangsefnið verður þá sem fyrr að skoða ábyrgð og þátt einstaklingsins í því að móta lífshlaup sitt, en jafnframt að spyrja þeirrar spurningar hvaða þættir það séu í umhverfi og samskiptum sem ráði miklu um heilsufar viðkomandi einstaklings.

10. desember. Jólamenningarkvöld Rótarinnar. Við fáum til okkar góða gesti sem ætla að gleðja okkur með góðum listum. Rithöfundarnir Elísabet Kristín Jökulsdóttir, Steinar Bragi og Þórdís Gísladóttir koma og lesa úr verkum sínum ásamt Iðunni Steinsdóttur sem les fyrir systur sína Kristínu Steinsdóttur. Einnig ætlar Jökull Júlíusson söngvari hljómsveitarinnar Kaleo að syngja og spila nokkur lög.

Share This