Fyrsti viðburðurinn í starfi Rótarinnar haustið 2020 er námskeiðið Forvarnir fyrir grunnskóla sem haldið er 2. september. Í haust verða haldin nokkur námskeið á vegum félagsins, Rótarhópurinn hefur göngu sína 16. september og þá býður félagið upp á fjölbreytta fræðslu meðal annars fyrir ráðgjafa og dvalarkonur Kvennaathvarfsins.

Athugið að félagið fylgir sóttvarnareglum vegna Covid-19 og því komast færri að á námskeið og hópa.

Vegna Covid-19 er nú gert hlé á umræðukvöldum félagsins í haust og eins er um Hreyfiaflið.

Dagskrá haustsins, smellið á myndirnar fyrir frekari upplýsingar:

Konur finna styrk sinn

Í leiðsagnarhópnum Konur finna styrk sinn er lögð áhersla á að vinna með rætur vímuefnavanda og annað andstreymi í lífi kvenna. Unnið er út frá því að vímuefnanotkun sé ekki einangrað vandamál heldur eigi sér m.a. rætur í áföllum og tekið er á þeim fjölþætta vanda sem konur með sögu um vímuefnavanda standa frammi fyrir. Námskeiðið hefst 30. september og skráningu lýkur 21. september.

Áföll – Leiðir til bata

Námskeiðinu er ætlað að styðja konur við að vinna úr afleiðingum áfalla. Athyglinni er beint að þeim áföllum sem konur eru í mestri hættu á að verða fyrir eins og kynferðisofbeldi, ofbeldi í nánum samböndum og öðru ofbeldi á milli tengdra aðila. Kennd eru bjargráð sem nýtast við úrvinnslu áfalla almennt. Námskeiðíð er haldið 7., 8. og 14. nóvember.  Skráningu á námskeiðið lýkur 1. nóvember. 

Forvarnir í grunnskólum, áskoranir og leiðir

Námskeiðið byggir á gagnreyndri þekkingu á forvörnum og verður meðal annars fjallað um börn og unglinga í áhættuhópum og áhrifaþætti vímuefnanotkunar eins og þeir birtast t.d. rannsóknum á erfiðri lífsreynslu í æsku og tengsl við vímuefnanotkun (ACE-listinn). Námskeiðið er haldið eftir samkomulagi og geta skólar og skólasvæði óskað eftir að fá námskeiðið til sín. Fyrsta námskeið haustsins er haldið 2. september. Skráning á námskeiðið. 

Námskeið fyrir fagfólk sem þjónustar konur

Námskeið fyrir fagfólk sem þjónustar konur sem glíma við áföll og vímuefnavanda. Markmiðið er að kynna þá aðferðafræði sem Rótin fylgir fyrir fagfólki sem hefur áhuga á áfalla- og kynjamiðaðri nálgun. Námskeiðið er haldið 26. og 27. september, kl. 10.00-15.00 dagana. Skráningu á námskeiðið lýkur 18. september. 

 

Þú ert ekki ein, við erum margar

Ástæður fjölskylduslita geta verið margvíslegar. Til dæmis geta þau orðið í kjölfar þess að konur opna umræðu um ofbeldi í skjóli fjölskyldu, hvort heldur er í kjölfar sifjaspells, kynferðisofbeldis, líkamlegs eða andlegs ofbeldis. Fjölskylduslit geta orðið að frumkvæði þolenda eða vegna útilokunar. Námskeiðið er haldið helgina 28.-29. nóvember og laugardaginn 9. janúar og skráningu lýkur 20. nóvember.

Rótarhópur

Rótin býður upp á sjálfshjálparhóp, Rótarhóp, fyrir konur sem tekið hafa þátt í námskeiðinu Konur finna styrk sinn og öðrum námskeiðum og hópum á vegum Rótarinnar. Konur sem eru komnar vel af stað í að bæta lífsgæði sín með öðrum leiðum eru einnig velkomnar í Rótarhópinn. Hópastarfið er konunum að kostnaðarlausu en samskotum er safnað. Á hverjum fundi er unnið með ákveðið þema.

Share This